Stóriðja í Helguvík er tímaskekkja, Arion banki og Stakksberg eiga að falla frá hugmyndum um að endurræsa kísilverksmiðjuna, landvernd.is

Látum söguna ekki endurtaka sig

Stjórn Landverndar fær ekki séð að Stakksberg/Arionbanki hafi sýnt fram á að endurbætur á kísilverksmiðjunni í Helguvík munu tryggja öryggi íbúa í Reykjanesbæ eða að losun gróðurhúsalofttegunda verði á því bili sem gert er ráð fyrir. Núllkostur, að ræsa verksmiðjuna ekki að nýju, er eini rökrétti kosturinn.

Stöðvum stóriðju í Helguvík

Stóriðjuuppbygging í Helguvík er sorgarsaga.  Kísilver United Silicon, álver í Helguvík, kísilver Thorsil og stórskipahöfnin í Helguvík hafa engum tilgangi þjónað enn nema að brenna upp fjármuni og spilla heilsu íbúa. Það er fullkomið tillitsleysi við íbúa á Reykjanesi og við framtíðarkynslóðir að reyna að fara aftur af stað með starfsemi sem fékk falleinkunn.    

Stjórn Landverndar hvetur Stakksberg/Arionbanka til þess að falla frá hugmyndum um að endurræsa kísilverið.  Kísilverið er fulltrúi hrunsins og gamla tímans þar sem gengdarlaus og ósjálfbær ágangur á auðlindir viðgekkst. Nútíminn kallar á nýjar lausnir og fjárfestingar sem efla hringrásarhagkerfið. Þar er fjármunum bankans betur varið til heilla fyrir framtíðina.

Umsögn Landverndar um frummatsskýrslu Stakksbergs í eigu Arionbanka vegna stækkunar Kísilvers í Helguvík (áður United Silicon)

Egilsstöðum 22. júní 2020
Umsögn send Skipulagsstofnun 
 

Stjórn Landverndar hefur skoðað frummatsskýrslu Verkís fyrir hönd Arionbanka/Stakkbergs vegna stækkunar kísilvers í Helguvík. Landvernd telur að ekki sé hægt að samþykkja stækkun kísilverksmiðjunnar eins og lagt er til í frummatsskýrslu af þremur meginástæðum:

  • Stakksberg hefur ekki fundið neinar skýringar á veikindum íbúa í nágrenni kísilversins sem þá var í eigu United Silicon. Á meðan rökstuddur grunur leikur á að útblástur frá kísilverinu hafi verið ástæða veikinda íbúa en ekki hefur fundist hvað í útblæstrinum kanna að vera þess valdandi er rík ástæða til að óttast að heilsufari íbúanna verði stefnt í hættu með því að gangsetja verksmiðjuna aftur.
  • Gríðarleg aukning í losun gróðurhúsalofttegunda fylgir stækkuninni. Ef af fullri stækkun verður mun losun frá Íslandi aukast um 10% sem er andstætt nauðsynlegum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Miklar rekstrartruflanir sem voru á starfsemi kísilvers United Silicon þegar það var í gangi. Ef marka má fréttir hafa einnig orðið bilanir í kísilveri PCC á Bakka. Þar er því rík ástæða til að ætla að það sama gerist í áformuðu endurbættu kísilveri Stakksbergs.

Um þessi atriði verður fjallað nánar síðar í umsögninni sem og nokkur önnur atriði sem Landvernd telur samanlagt að verði til þess að samfélagslegir og umhverfislegir þættir í rekstri og stækkun kísilverksmiðjunnar séu verulega neikvæðir og því verði leyfisveitendur að hafna umsóknum til stækkunar og endurnýjaðs reksturs verksmiðjunnar. Þegar mikil óvissa er um áhrif framkvæmdar, og ekki síst ef heilsufar í aðliggjandi byggðum kann að vera í húfi, er skynsamlegt að grípa til varúðarreglunnar. 

Stjórn Landverndar tekur heilshugar undir umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar sem bæjarstjórn samþykkti á 251. fundi sínum þann 11. júní sl. en þar segir ma. (feitletrun Landverndar):

„Niðurstaða umhverfis- og skipulagsráðs er að ekki sé nægilega gerð grein fyrir umhverfisáhrifum starfseminnar. Ráðið er ekki sammála niðurstöðum frummatsskýrslunnar varðandi loftgæði, samfélag, atvinnulíf og heilsu og telur mjög ólíklegt að efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar séu það mikil að þau vegi upp á móti neikvæðum áhrifum hennar á þann veg að þau nái að gera heildaráhrif verksmiðjunnar á samfélagið jákvæð.“

Heilsufar íbúa í nágrenni Helguvíkur

Á rekstrartíma kísilversins sem nú á að koma aftur í gang fundu íbúar Reykjanesbæjar og víðar fyrir miklum neikvæðum heilsufarsáhrifum. Eins og sést af athugasemdum úr samráðsferli Stakksbergs vegna frummatsskýrslu er þetta skiljanlega helsta áhyggjuefni þeirra sem málið varðar. Þar sem íbúabyggð er eingöngu kílómetra frá athafnasvæði verksmiðunnar má lítið út af bera til þess að hættuleg efni fari yfir byggðina og mengi andrúmsloft íbúanna. Fram kemur í frummatsskýrslu og í svörum við athugasemdum úr samráðsferli, að Stakksberg hefur engar skýringar fundið á veikindum íbúana sem tengdar hafa verið við kísilverksmiðjuna. Því er ekkert vitað um það hvort þær aðgerðir sem nú á að grípa til til þess að koma í veg fyrir að hættulegum efnum verði dælt yfir íbúabyggð muni virka. Á meðan orsök veikindanna finnst ekki, er ekki hægt að tryggja að þau muni ekki endurtaka sig þegar verksmiðjan verður aftur gangsett. Hægt er að leiða líkum að því að hár skorsteinn fyrir útblástur dragi úr þessum áhrifum. En reynslan ein fær úr því skorið. Það er ekki ásættanlegt að gera áframhaldandi tilraunir á íbúum án samþykkis þeirra. Það verður að svara með óyggjandi hætti að veikindi viðkvæmra hópa muni ekki taka sig upp aftur áður en lengra er farið. Því er ekki svarð í frummatsskýrslu og þar er fullyrt að því sé ekki hægt að svara. Þetta atriði eitt ætti því að vera næg ástæða til að draga til baka áform um að gangsetja verksmiðjuna aftur að afloknum kostnaðarsömu endurbótum. 

Rekstrartruflanir og óvissa

Á rekstrartíma Kísilversins tókst ekki að halda stöðugu hitastigi á ofnum, eða halda nokkrum stöðugleika í starfi verksmiðjunnar. Það er of langt mál að telja upp allt það sem misfórst á rekstrartíma verksmiðjunnar enda hafa margir fjölmiðlar fjallað ítarlega um það. Ítrekað sleppti verksmiðjan út menguðu lofti langt umfram heimildir. Sömu sögu er að segja af kísilveri PCC á Bakka þar sem hver bilunin hefur rakið aðra ef marka má fréttir. Frummatsskýrslan veitir ekki sannfærandi svör við því hvernig Stakkberg/Arionbanki hyggst koma í veg fyrir að saga bilana, truflana og neyðarviðbragða endurtaki sig. 

Skorsteinn og aðrar endurbætur

Endurbætur sem Stakksberg fyrirhugar á verksmiðjunni eru til einhverra bóta, eins og notkun skorsteins til þess að draga úr mengun yfir byggðina. Samt sem áður er verið að dæla jafn miklu (eða meira ef af stækkun verður) af mengandi efnum út í andrúmsloftið, bara á annan hátt með dreifingu sem er til bóta fyrir íbúana á meðan allt gengur vel. Einnig verður að taka inn í reikninginn að í mörgum tilfellum verður að hleypa menguðu lofti út um rjáfur ef bilanir verða, eins og iðulega gerðist þegar verksmiðjan var áður í rekstri og gerist enn hjá PCC á Bakka. Eins og áður sagði hefur Stakksberg ekki með sannfærandi hætti sýnt að dregið verði verulega úr bilunum og rekstrartruflunum þegar og ef verksmiðjan verður gangsett að nýju. Á sínum tíma töldu forsvarsmenn United Silicon að skorsteinn dygði ekki til að draga úr uppsafnaðri mengun vegna tveggja kísilvera á svæðinu. sbr. athugasemdir um áformað kísilver Thorsil í Helguvík. Af framansögðum athugasemdum frá árinu 2014 verður aðeins dregin sú ályktun að stækkun kísilvers Stakkbergs sem lýst er í frummatsskýrslu sé óábyrg þrátt fyrir að reistur verði skorsteinn fyrir útblástur.
Landvernd hefur því ekki ástæðu til að ætla að fyrirhugaðar endurbætur á verksmiðjunni séu nægjanlegar til þess að koma í veg fyrir að þeir gríðarmiklu erfiðleikar í starfsemi verksmiðjunnar áður en henni var lokað, endurtaki sig.
Þá vill stjórn Landverndar benda á að orðið „lyktarmengun“ er villandi. Lyktin er af efnum sem skynfæri manna greina og þeim geta fylgt hættuleg efni sem lyktarskynið greinir ekki. Orðið lyktarmengun gefur til kynna að einu óþægindin sem um ræðir séu vond lykt en í tilviki kísilverksmiðjunnar fylgdu lyktinni allskyns hættuleg og ertandi efni eins og brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnissambönd, svifryk, þungmálmar og rokgjörn lífræn efni. 

Losun gróðurhúsalofttegunda

Sú aukning í losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi sem forsvarsmenn Stakksbergs (Arionbanki) vilja er í fullu ósamræmi við stefnu Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040, skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og sjálfbæra þróun þar sem hún spillir fyrir möguleikum komandi kynslóða að uppfylla sínar þarfir. Skiptir þá litlu að losunin falli undir ETS kerfið, hún mun samt stuðla að hraðari hlýnun jarðar með tilheyrandi hamförum.
Þegar að auki er mikil óvissa með rekstur verksmiðjunnar, bilanatíðni og hversu vel gengur að halda ljósbogaofnum við rétt hitastig gæti losunin orðið enn meiri en ella, eins og raunin varð þegar verksmiðjan var síðast gangsett. 

Grunnvatnsmengun

Stjórn Landverndar telur að vegna staðsetningar standi vatnsbólum íbúa á Reykjanesi ekki alvarleg ógn af kísilverinu. Hafa ber í huga að vatnsbólum á svæðinu stendur ógn af mörgum þáttum eins og starfsemi flugvallarins sem veltir eiturefnum beint út í hraunið, vegna aflagðrar starfsemi herstöðvarinnar á Miðnesheiði og vegna mikillar umferðar um Grindavíkurveg. Losun frá áformaðir verksmiðju bætir óneitanlega á loftmengun á svæðinu og sú mengun mun að einhverju leyti falla til jarða á vatnsbólum íbúa. Hún er því óhjákvæmilega viðbót við þá ógn við vatnsbólin sem þegar er fyrir hendi. Skynsamlegra er að draga úr hættu á mengun vatnsbóla fremur en að auka hana með rekstri kísilversins. 

Deiliskipulag

Stjórn Landverndar bendir aftur á umsögn Reykjanesbæjar um frummatsskýrsluna en þar kemur fram að núverandi byggingar séu ekki í samræmi við deiliskipulag og að fyrirhugaðar breytingar þarfnist að auki breytinga á deiliskipulagi. Miðað við neikvæða umsögn sveitafélagsins um frummatsskýrsluna er ekki ástæða til að ætla að sveitarfélagið fallist á breytingar á deiliskipulagi eða veita framkvæmdaleyfi fyrir breytingum. Íbúar, vegna fyrri reynslu, verða skiljanlega að öllum líkindum aldrei sáttir við verksmiðjuna. Það má því telja að affarsælast fyrir Arionbanka sé að afskrifa verksmiðjuna, sem fram til þessa hefur verið öllum til óheilla. Endurbætur kosta 4,5 milljarða króna, helming af því sem núverandi ríkisstjórn áætlar í loftslagsmál á 5 árum. Ef til vill mætti finna milljörðunum 4,5 einhver betri not. 

Í hvað fer orkan?

Forsvarsmenn orkufyrirtækja hafa undanfarið lagt mikla áherslu á að í landinu sé orkuskortur og hafa stundað hræðsluáróður um að ekki sé til næg orka til dæmis til þess að knýja rafbílaflota landsins.
Landvernd telur að þessar fullyrðingar standist ekki en telur að mikilvægt sé að taka meðvitaðar ákvarðanir um það í hvað orkan sem framleidd er á Íslandi með tilheyrandi spjöllum á íslenskri náttúru sé notuð. Að mati stjórnar Landverndar ætti mengandi stóriðja eins og kísilver að vera neðarlega á forgangslista yfir orkukaupendur framtíðarinnar. Það er óásættanlegt að orkufyrirtækin geri samninga við stórkaupendur að orku og fullyrði svo að ekki sé til næg orka í landinu og að fara verði í frekari eyðileggingu á náttúrunni. Landsvirkjun hefur lofað orku til verksmiðjunnar óbreyttrar með afli sem nemur 35 MW. Þá orku væri heillavænlegra að nýta til annarra þarf svo sem rafbílavæðingu, ræktun grænmetis eða rafvæðingu hafna. 

Sjónræn áhrif

Með þeim „endurbótum“ sem lýst er í frummatsskýrslunni mun verksmiðjan hafa enn meiri sjónræn áhrif og sjást mjög víða að. Þessi áhrif verður að meta heildstætt og frá grunni í ljósi þess hve víðsýnt er að verksmiðjunni og hve þétt byggð er í nágrenni hennar. Þá eru myndir sem sýna eiga sjónræn áhrif verksmiðjunnar villandi. 

Lokaorð

Stjórn Landverndar fær ekki séð að Stakksberg/Arionbanki hafi sýnt fram á að endurbætur á kísilverksmiðjunni í Helguvík munu tryggja öryggi íbúa í Reykjanesbæ eða að losun gróðurhúsalofttegunda verði á því bili sem gert er ráð fyrir. Núllkostur, að ræsa verksmiðjuna ekki að nýju, er eini rökrétti kosturinn.
Ef þrátt fyrir málefnaleg mótrök verði fallist áformin, ber að hafna alfarið þeim stækkunun sem lagt er upp með í frummatsskýrslu þannig að hugsanlegir fjárfestar reikni ekki hagkvæmi í verkefnið með stækkunarmöguleikum.
Stóriðjuuppbygging í Helguvík er sorgarsaga. Kísilver United Silicon, álver í Helguvík, kísilver Thorsil og stórskipahöfnin í Helguvík hafa engum tilgangi þjónað enn nema að brenna upp fjármuni og spilla heilsu íbúa. Stjórn Landverndar telur að frekari stóriðjuuppbyggingu á Íslandi heyri sögunni til og að um hana verði aldrei sátt, ekki síst eftir hamfarasögu United Silicon. Það er fullkomið tillitsleysi við íbúa á Reykjanesi og við framtíðarkynslóðir að reyna að fara aftur af stað með starfsemi sem fékk falleinkunn.
Stjórn Landverndar hvetur Stakksberg/Arionbanka til þess að falla frá hugmyndum um að endurræsa kísilverið. Kísilverið fulltrúi hrunsins og gamla tímans þar sem gengdarlaus og ósjálfbær ágangur á auðlindir viðgekkst. Nútíminn kallar á nýjar lausnir og fjárfestingar sem efla hringrásarhagkerfið. Þar er fjármunum bankans betur varið til heilla fyrir framtíðina.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri 

 

 

Draumórar um óheftan vöxt fiskeldis

Stjórn Landverndar telur skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi vera draumóra fiskeldisiðnaðarins og í raun gagnlítið plagg. Mjög alvarlegt er …

Lesa meira
Mengun frá kolaveri erlendis

Breytingar á lögum um loftslagsmál

Aðgerðir í loftslagsmálum eru sameiginlegt verkefni allra landsmanna og við sem samfélag þurfum að fá þær bestu upplýsingar sem fáanlegar eru til þess að meta hvað eru skynsamlegar og góðar ákvarðanir um aðgerðir. Nauðsynlegt er að almenningur hafi aðgang að þeim greiningum og gögnum sem loftslagsráð leggur til grunndvallar í sinni ákvarðanatöku.

Lesa meira

Svæðisskipulag Suðurhálendisins

Stjórn Landverndar leggst alfarið gegn áformum um þá miklu uppbyggingu vegamannvirkja á Suðurhálendinu sem koma fram í tillögu að svæðisskipulagi.

Lesa meira

Draumórar um óheftan vöxt fiskeldis

Stjórn Landverndar telur skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi vera draumóra fiskeldisiðnaðarins og í raun gagnlítið plagg. Mjög alvarlegt er …

Lesa meira
Mengun frá kolaveri erlendis

Breytingar á lögum um loftslagsmál

Aðgerðir í loftslagsmálum eru sameiginlegt verkefni allra landsmanna og við sem samfélag þurfum að fá þær bestu upplýsingar sem fáanlegar eru til þess að meta hvað eru skynsamlegar og góðar ákvarðanir um aðgerðir. Nauðsynlegt er að almenningur hafi aðgang að þeim greiningum og gögnum sem loftslagsráð leggur til grunndvallar í sinni ákvarðanatöku.

Lesa meira

Svæðisskipulag Suðurhálendisins

Stjórn Landverndar leggst alfarið gegn áformum um þá miklu uppbyggingu vegamannvirkja á Suðurhálendinu sem koma fram í tillögu að svæðisskipulagi.

Lesa meira

Áform um stórtækan útflutning efnis af hafsbotni

Að mati Landverndar er efnistaka upp á 2 milljónir tonna óraunhæf og í andstöðu við markmiðið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda næstu tvo áratugina.

Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif. 

Scroll to Top