Vindorkuver eiga ekki heima hvar sem er. Vissara er að taka vindorku inn í rammaáætlun.

Vindorkuver ættu að bíða niðurstöðu rammaáætlunar

Umhverfisáhrif Vindorkuvera geta verið mjög mikil. Í tilviki fyrirhugaðs vindorkuvers á Mosfellsheiði er um að ræða gríðarmikið jarðrask og efnistöku, sjónmengun og neikvæð áhrif á landslagsheildir og hættu fyrir fuglalíf. Inn í tillögu að matsáætlun vantar áætlun um mat á áhrifum á ferðaþjónustu og útivist.

Umsögn Landverndar um tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum allt að 200 MW vindorkuvers á Mosfellsheiði

 

 

Sent með tölvupósti til Skipulagsstofnun 14. október 2020

Stjórn Landverndar hefur kynnt sér ofangreinda tillögu og gerir hér nokkrar athugasemdir.  Þær eru ekki tæmandi og Landvernd boðar frekari athugasemdir á síðari stigum umhverfismatsferlisins. Þá vill stjórn Landverndar benda á rit samtakanna sem kom út í janúar 2018 þar sem finna má gátlista fyrir sveitastjórnir vegna vindorkuvera og lista yfir þau svæði sem Landvernd telur að ætti ekki að reisa vindmyllur á1.

Í upphafi skal endinn skoða

Landvernd telur að markmið framkvæmdanna byggi á veikum grunni.  Eins og staðan er í dag eru mjög litlar líkur á aukinni orkuþörf á Íslandi á komandi árum. Hver er það sem á að kaupa þá orku sem vindorkuverið framleiðir? 

Eins og staðan er í dag eru mjög litlar líkur á aukinni orkuþörf á Íslandi á komandi árum. Hver er það sem á að kaupa þá orku sem vindorkuver framleiða?

 

Landvernd benti á í umsögnum um Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 að miklar líkur eru á að töluverður hluti raforku sem seldur er á Íslandi dragist saman á næstu árum frekar en að hann aukist. Sömu viðhorf koma fram í viðtali við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirhugaður samdráttur Rio Tinto, lokun kísilvera og samdráttur hjá gagnaverum ræður þar mestu. Landvernd hefur einnig ítrekað bent á að raforkuspá er ekki góður grunnur til að áætla orkueftirspurn komandi ára, bæði vegna þess að hún gerir m.a. ráð fyrir allt of mikilli aukningu í stóriðju á Íslandi og því að hún er unnin eingöngu af fulltrúum orkugeirans sem hafa beina hagsmuni af því að spá fyrir um aukna raforkunotkun.  
Zephyr er því bent á að ef markmið framkvæmdarinnar er að mæta aukinni orkunotkun á Íslandi er líklega best að salta hugmyndirnar í nokkur ár. 

Rammaáætlun 

Eins og farið er yfir í tillögunni fyrirhuga stjórnvöld að skýra lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) þannig að vindorkuver falli klárlega undir lögin.  Áhrif vindorkuvera á land eru óumdeild, þeim fylgir feiknamikið jarðrask þar sem gera þarf vegi, undirstöður og kranapall við hverja myllu. Því er það útúrsnúningur þegar talað er um að lög um um verndar- og orkunýtingaráætlun eigi ekki við um vindorkuver vegna þess að vindurinn, ekki landið, er virkjaður. Framkvæmdaraðila ber að bíða með umhverfismat þar til verkefnisstjórn rammáætlunar 4 hefur lokið umfjöllun um þennan virkjunarkost.  Í öllu falli getur Skipulagsstofnun ekki fallist á matsáætlun fyrr en að niðurstaða rammaáætlunar 4 liggur fyrir.  

Efnistaka 

Framkvæmdaraðila er bent á að fyrir svo gríðarmikla efnistöku (hálfa milljón rúmmetra) verður við skil á matskýrslu að liggja fyrir hvaðan þetta efni á að koma.  Þeir kostir sem nefndir eru í tillögunni (Bolaalda og Lambafell) munu ekki nægja til því margir eru um hituna.  Þá er rétt að benda á að Bolalda er á þjóðlendu og eftir því sem Landvernd hefur fengið upplýst hefur efnistöku þar verið hætt. 

Góður og jarðvegur

Með það í huga hversu mikil áhrif vindorkuver hafa á landið og þar með á gróður- og jarðvegsauðlindirnar verður mat á þeim að vera hið minnsta jafnumfangsmikið og ef um jarðvarma- eða vatnsaflsvirkjun sé að ræða. Þetta sést til dæmis í matsskýrslu fyrir Búrfellslund2 þar sem segir:  „Landgræðslan leggur þunga áherslu á að nákvæm grein verði gerð fyrir  því hve mikið gróið land muni fara undir fyrirhugaðar framkvæmdir, hvort  sem er myllustæði,  slóðar,  raflínur eða  hvers konar jarðvegsrask  annað,  enda mun Landgræðslan gera skýlausa kröfu um að sá gróður sem kann  að  tapast  við  þessar  framkvæmdir,  verði  að  fullu  bættur,  einnig  þó  einhverjum kunni að þykja hann síður náttúrufarlsega verðmætur.“   

Áhrif á fugla 

Þar sem áhrif vindorkuvera á fuglalíf geta verið mjög alvarleg, er eðlilegt að gera mjög nákvæma skoðun á hegðun og umferð fugla um áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Ekki er nóg að meta hvort áhrifin verði það alvarleg að stofnstærðir séu í hættu, meta þarf nákvæmlega hversu víðtæk áhrif vindmillur hafi á fuglalíf og af hvaða tegundum fuglarnir eru.  

Útivist og ferðaþjónusta

Landvernd telur mjög brýnt að áhrif framkvæmdanna á útivist og ferðaþjónustu verði metnir. Sjónrænna áhrifa af vindmyllunum mun gæta frá einum vinsælasta ferðamannastað landsins, Þjóðgarðinum á Þingvöllum.  Þá munu fjölsóttir staðir sem mikið eru nýttir til útivistar af höfuðborgarbúum verða fyrir miklum áhrifum af byggingu vindorkuversins.  Því er mjög brýnt að bæta við mati á áhrifum á þessa tvo flokka.  

Áhrif á loftslag og jarðstrengir 

Meta þarf losun í tengslum við framkvæmdina og loftslagsáhrif á rekstrartíma. Endurskoða þarf í samræmi við athugasemdir Landsnets áætlanir um að tengja vindorkuverið við flutningsnetið með jarðstrengjum.  

Samfélagsleg áhrif 

Stjórn Landverndar spyr sig að því hvers vegna meta á tekjuaukningu leyfisveitenda vegna framkvæmdanna.  Eins og Landvernd hefur bent á geta sveitafélög lent í hagsmunaárekstrum við veitingu framkvæmdaleyfis þegar tekjur af sömu framkvæmdum geta orðið umtalsverðar fyrir sveitafélagið sjálft.  Kannski er því rétt af framkvæmdaraðila að draga þessa hagsmunaárekstra fram í dagsljósið. 

Strax komnar niðurstöður

Mannvit fyrir hönd framkvæmdaraðila hefur á nokkrum stöðum í tillögunni þegar komist að niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum.  Þær hugleiðingar verktakans eiga að mati Landverndar ekki heima í tillögu að matsáætlun.  Dæmi um þetta eru fullyrðingar á bls. 19 um lítil áhrif vindorkuvera á fuglalíf. 

Mikilvægar leiðréttingar

Á bls. 1 er sagt að “sveitarstjórnir taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar” en lögunum var breytt árið 2019 og nú skulu leyfisveitendur leggja álit Skiplagsstofnunar til grundvallar ákvörðun sinni.  

Uppfæra þarf tímasetningar á bls. 2.  

Lokaorð 

Markmið framkvæmdanna byggir á hæpnum forsendum þar sem útlit er fyrir mikla lausa raforku í kerfinu á næstu árum og vindorkuverið hefur ekki verið samþykkt skv. lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.  Inn í matsáætlun vantar matsþættina áhrif á útivist, ferðaþjónustu og losun gróðurhúsalofttegunda og mat á efnistöku, gróður- og jarðvegsskemdum og áhrifum á fuglalíf þarf að vera dýpra.  

Virðingarfyllst, 
f.h. stjórnar Landverndar 

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri  

  1. Þóroddur Þóroddsson (2018) Virkjun vindorku á Íslandi. Landvernd, Reykjavík.
  2. Rúnar B. Bjarnason/Mannvit (2016) Búrfellslundur. Mat á umhverfisáhrifum, matsskýrsla. Landsvirkjun, Reykjavík

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Stuðningur við friðlýst svæði í Vatnsfirði

Mikill skaði myndi hljótast af virkjun á friðlýstu svæði í Vatnsfirði. Gott væri ef Orkubú Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins léti af ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.