Eldvörp er gígaröð á Reykjanesi sem má teljast glæný á jarðfræðilegan mælikvarða. Þau eru í nýtingarflokki.
Eldvörp er gígaröð á Reykjanesi. Ljósmynd: Ellert Grétarsson, elg.is
Eldvörp er glæný gígaröð á mælikvarða jarðsögunnar og eru þau með fallegustu gígaröðum landsins, og að auki lítið snortin.
Eldvörp eru í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Skoðaðu náttúrukortið á landvernd.is

Orkunýtingarflokkur

Eldvörp á Reykjanesi eru flokkuð í orkunýtingarflokk í Rammaáætlunar.

Eldvörp eru með fallegustu gígaröðum landsins, lítið snortin og í örskotsfjarlægð frá þéttbýlisstöðum Suðvesturhornsins.
Á mælikvarða jarðsögunnar eru Eldvörp glæný gýgaröð sem myndaðist í eldgosi á svipuðum tíma og Snorri Sturluson vann við ritun bóka sinna eða á 13. öld. 

Eldvörp er einn 55 jarðminjastaða innan Reykjanes UNESCO Global Geopark, en það eru svæði þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvægar á heimsvísu er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.

Eldvörp eru 10 km löng gígaröð

Eldvörp eru tæplega 10 km löng gígaröð um 4 km suðvestan við Bláa lónið og Svartsengi. Jarðhitageymir Eldvarpa og Svartsengis er talinn vera sameiginlegur.

Skammt frá Eldvörpum er Sundvörðuhraun með friðlýstum, merkum minjum um felustað Grindvíkinga vegna Tyrkjaránsins og hin merka og forna gönguleið Árnastígur. Náttúruminjar sem finna má á svæðinu til viðbótar við Eldvörp eru Reykjanes og Hafnarberg.

Í Eldvörpum má finna Tvígígahelli en þar má sjá tengingu neðanjarðar á milli tveggja eldgíga eftir gosrásinni á milli þeirra. EKKI ER MÆLT MEÐ HEIMSÓKN Í HELLANA VEGNA GASSÖFNUNAR. 

Jarðhitasvæðið er í nær miðri Eldvarpa-gígaröðinni, sem er frá sögulegum tíma og teygir sig langa vegu með unga og úfna gíga sína. Jarðhitaummerki á yfirborði eru lítil, aðeins gufutjásur í góðu veðri og smáskellur á hrauninu við gufuaugun.

 

Gígaraðir eru eitt verðmætasta sérstæði íslensks landslags

Gígaraðir eru eitt verðmætasta og sérstæðasta sérkenni íslensks landslags. Flestar hafa myndast undir jökli en mun færri eftir síðustu ísöld og eru Eldvörp því einstakt náttúruundur. Eldvörp eiga sér enga hliðstæðu fyrr en komið er austur að Lakagígum og eru einstök smærri útgáfa af þessari frægustu gígaröð landsins.

Umhverfisstofnun hefur lagt til að svæðið verði gert að friðlandi.

Eldvörp og Svartsengissvæðið

Eldvörp eru í sama eldstöðvakerfi og Svartsengi. Lesa um eldstöðvakerfið á vísindavefnum. Nú þegar er mikil orkuvinnsla í Svartsengi, en flestir þekkja svæðið af Bláa lóninu, sem er í raun kísilríkt affalsvatn af virkjunninni.  

Eldstöðvakerfi á Reykjanesi. ISOR
Eldstöðvakerfi á Reykjanesi. Mynd: ISOR, fengin af Vísindavefnum.

Virkjunarhugmyndir

Jarðýturnar eru mættar

Eldvörp eru flokkuð í orkunýtingarflokk Rammaáætlunar. Fyrirhuguð 30-50MW virkjun í Eldvörpum mun hafa mikil áhrif bæði á náttúru- og menningarminjar á svæðinu, þar á meðal sjálfa gígaröðina og Sundvörðuhraun.

Rannsóknaboranir hafa nú þegar valdið  skaða á svæðinu. 

 

Búið er að gera borplan og borholu við einn gíginn í miðju Eldvarpa. Spjöllin af völdum þessa eru ekki mikil miðað við það rask sem mun fylgja fleiri borplönum með tilheyrandi gufuleiðslum og vegum, ásamt stöðvarhúsi, skiljuhúsi og háspennulínum.

Virkjunin á að vera samofin raf- og heitavatnsvirkjun. 

Grindavíkurbær vinnur í að klára aðalskipulag virkjunarhugmyndarinnar en rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi hafa fengist.

Verndum svæðið

Eldvörp eru skammt frá helsta alþjóðaflugvelli og þéttbýli landsins. Ef svæðið fær að standa ósnortið felur það í sér ómæld verðmæti vegna náttúrufegurðar og útivistargildis rétt við byggð, en ljóst er að slík náttúrusvæði verða sífellt sjaldgæfari nú til dags.

 

Kostir

Helstu kostir sem hafa verið nefndir byggjast á því að það sé tiltölulega ódýrt vegna nálægðar við þau virkjanamannvirki sem komin eru við Svartsengi og Eldvarpavirkjun. Þegar hefur verið lagður vegur inn að miðju gígaraðarinnar og gert þar borplan sem hefur valdið nokkru raski á svæðinu. Ekki stendur til að raska gígunum sjálfum með virkjuninni og vegir sem gerðir verði um svæðið muni skapa bætt aðgengi að þessari náttúruperlu.

Gallar

Allt frá því að Guðmundur Pálmason jarðfræðingur áætlaði að sameiginlegur jarðhitageymir væri undir Svartsengi og Eldvörpum, er sýnt að með dælingu upp úr þessu hólfi væri aðeins verið að stytta endingartíma virkjunarinnar og virkjunin því ekki aðeins óþörf heldur beinlínis skaðleg með tilliti til hagsmuna komandi kynslóða. Virkjun í Svartsengi og Eldvörpum yrði enn fjær því að skapa endurnýjanlega orku eða standast skilyrði um sjálfbæra þróun en ella.

Reykjanes UNESCO Global Geopark er 829 ferkílómetrar að flatarmáli, 0,85% af Íslandi. Þar rís Mið-Atlantshafshryggurinn úr sæ. Eldstöðvar móta skagann auk þeirra fyrirbæra sem henni fylgja, allt frá jarðlögum af jökulskeiði til ungra hrauna. Á Reykjanesi er hægt að finna háhitasvæði með tilheyrandi hverum og gufustrókum, hundruð mismunandi gíga, hella, hraunbreiða, kletta og svartar strendur. Ekki má gleyma að minnast á heimsþekkt fuglabjörg sem dýralífsunnendur mega alls ekki láta fram hjá sér fara.

Kynntu þér Eldvörp nánar

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is