Ályktanir Aðalfundar Landverndar 2020
Lög um mat á umhverfisáhrifum
Aðalfundur Landverndar 2020 hvetur stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi til þess að tryggja til framtíðar gagnsætt, lýðræðislegt og gagnlegt ferli við mat á umhverfisáhrifum. Til þess verða stjórnvöld að innleiða EES tilskipun 2014/52/ESB hið fyrsta. Áríðandi er að eftirfarandi atriði verði lagfærð eins og tilskipunin gerir ráð fyrir:
- Við leyfisveitingu verði niðurstaða umhverfismats lögð til grundvallar og að leyfisveiting verði skilgreind sem lokaskref umhverfismats.
- Leyfisveitanda sé skylt að fullvissa sig um að allar upplýsingar séu viðeigandi og réttar og séu uppfærðar við veitingu leyfis (e. up to date).
- Stjórnvöld tryggi að leyfisveitendur séu hlutlausir og eigi ekki verulegra hagsmuna að gæta vegna framkvæmdar eða starfsemi sem veitt er leyfi.
- Markmið laganna verði einnig „hátt verndarstig umhverfisins”.
Jafnframt er áríðandi að réttur almennings og samtaka hans til þess að koma að opinberum ákvörðunum sé virtur.
Markmið með umhverfismati framkvæmda er að tryggja að náttúran verði ekki fyrir óbætanlegum skaða og að tekið sé tillit til umhverfisins í öllum undirbúningi og leyfisveitingarferlum vegna framkvæmda og starfsemi sem hefur neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Ísland hefur enn ekki að fullu innleitt EES tilskipun um umhverfismat en markmið með henni er að einfalda og uppfæra ferli við umhverfismat, bæta vernd umhverfisins og taka aukið tillit til nýrra áskoranna eins og loftslagsvár.
Í maí 2019 komst EFTA dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði ekki innleitt EES tilskipunina um umhverfismat með fullnægjandi hætti. Lögum um umhverfismat var breytt í júlí 2019 (lög 96/2019). Við þá breytingu var blandað saman tilraun til innleiðingar á EES reglunum og vinnu starfshóps umhverfisráðherra um heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum frá 2016. Ekki tókst allskostar vel til við breytingarnar og hún uppfyllir ekki lágmarkskröfur tilskipunarinnar í nokkrum veigamiklum atriðum sem hér er lýst:
- Til þess að tilgangi umhverfismats sé náð þarf að líta á alla málsmeðferðina sem eina heild. Leyfisveitingu á að skilgreina sem lokaskref umhverfismatsferlisins eins og fram kemur í 1. gr. tilskipunarinnar (Tilskipun 2014/52/ESB). Leyfisveiting verður því að byggja á áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmda eða starfsemi, sem rökrétt framhald af því.
- Álit skipulagsstofnunar getur ekki haft lágmarksgildistíma þar sem leyfisveitandi ber að fullvissa sig um við veitingu leyfis að allar upplýsingar séu dagsréttar, viðeigandi og uppfærðar (e. up to date). Álitið gæti haft hámarksgildistíma, sem sagt að eftir x ár frá útgáfu álitsins falli það í heild sinni úr gildi og ef framkvæmdaaðili óskar eftir leyfi til framkvæmda verði nýtt mat að fara fram.
- Skv. 9 gr. tilskipunarinnar eiga stjórnvöld tryggja að leyfisveitendur séu hlutlausir og eigi ekki verulegra hagsmuna að gæta vegna framkvæmdarinnar eða starfseminnar sem fær leyfið. Þetta hefur ekki verið fellt inn í íslensku lögin. Á Íslandi eru leyfisveitendur stórra framkvæmda oft mjög lítil sveitafélög sem geta átt von á umtalsverðri aukningu á tekjum sínum til dæmis í gegnum fasteignagjöld og vegna aukinna umsvifa á framkvæmdatíma. Sveitafélögin geta í þeim tilvikum ekki talist vera hlutlaus eða eiga ekki hagsmuna að gæta og geta því ekki verið lögbært yfirvald til leyfisveitinga í þessum tilvikum.
- Í tilskipuninni kemur skýrt fram að markmið hennar er hátt verndarstig umhverfisins. Þetta er ekki hluti af markmiðum íslensku laganna heldur eingöngu að draga eigi úr neikvæðum umhverfisáhrifum en ekki forðast þau eins og segir líka í tilskipuninni.
Réttur almennings og samtaka hans til þess að koma að opinberum ákvörðunum hefur verið takmarkaður hér á landi til dæmis með setningu laga um fiskeldi árið 2018 sem ESA hefur ákvarðað um að stangist á við EES reglur og með því að hindra aðgang umhverfisverndarsamtaka að dómsstólum. Þá ber oft við að þrátt fyrir opnar leiðir til umsagna og kæruheimilda skelli yfirvöld skollaeyrum við röksemdum um hagsmuni náttúrunnar og hunsi lýðræðisleg réttindi almennings til þess að vernda hana.
Það er mjög brýnt að lög um umhverfismat séu endurskoðuð í heild sinni sem og að EES reglur séu rétt innleiddar. Aðalfundur Landverndar skorar á Alþingi að bæta úr þessu hið fyrsta.