Þriggja vikna launum hent í ruslið

Matarsóun er peningasóun, landvernd.is
Þjóðir heims henda gríðarlegu magni af mat og eru Íslendingar þar engin undantekning. Árlega hendir hver fjölskylda mat sem samsvarar þriggja vikna launum. Margt má gera til að sporna við þessari óhugnanlegu þróun og koma í veg fyrir þessa sóun.

Þriggja vikna launum hent í ruslið. Matarsóun er peningasóun.

Viðtal við Rannveigu Magnúsdóttur, verkefnastjóra hjá Landvernd

Þjóðir heims henda gríðarlegu magni af mat og eru Íslendingar þar engin undantekning. Árlega hendir hver fjölskylda mat sem samsvarar þriggja vikna launum. Margt má gera til að sporna við þessari óhugnanlegu þróun og koma í veg fyrir þessa sóun.

Íslendingar engin undantekning

Þjóðir heims henda gríðarlegu magni af mat og eru Íslendingar þar engin undantekning. Árlega hendir hver fjölskylda mat sem samsvarar þriggja vikna launum. Margt má gera til að sporna við þessari óhugnanlegu þróun og koma í veg fyrir þessa sóun. Líffræðingurinn Rannveig Magnúsdóttir er verkefnisstjóri hjá Landvernd og hefur kannað leiðir til að draga úr þessari sóun á matvælum.

Flest höfum við orðið uppvís að því að setja allt of mikinn mat á diskinn okkar, til dæmis á jólahlaðborði, og getum ekki torgað því sem við höfum sjálf skammtað okkur. Þessi matur fer í ruslið. Miklum mat er hent á veitingahúsum og í matvöruverslunum en líka á heimilum. Hlutfallið hér á landi er talið vera um 30% þess sem keypt er inn. Í Evrópusambandsríkjunum er talið að allt að fimmtíu prósentum matvæla sé hent. Það hafa fáir efni á slíkri sóun, sé litið á málið frá því sjónarhorni.

Sóunin byrjar á akrinum

Matvælasóun hefst ekki eftir að maturinn er eldaður. Þvert á móti hefst sóunin, að sögn Rannveigar, strax í ræktunarferlinu.

„Sóunin byrjar á akrinum. Ef við tökum korn sem dæmi þá plantar bóndinn fyrst korninu. Síðan getur orðið náttúruleg sóun, til dæmis ef það kemur stormur eða plágur og það er erfitt að ráða við. Við uppskeruna sjálfa verður líka sóun . Á stórum ökrum er stundum verið að plægja þar sem sumt er þroskað en annað ekki. Þá getur óþroskaða kornið farið til spillis og því verið hent,“ útskýrir Rannveig.

Af akrinum fer kornið í geymslur og því miður skemmist margt við geymsluna sjálfa og við flutning.

„Því næst fer þetta í búðirnar og þar er mat í skemmdum umbúðum hent og sömuleiðis því sem nálgast síðasta söludag. Oft er allt í lagi með þann mat sem er verið að henda.“

Græðgi og of stórir skammtar

Matarvenjur fólks geta líka orðið til þess að mat er sóað. Til dæmis ef við förum sársvöng í búðina og kaupum alls konar óþarfa sem aldrei verður borðaður og veitingahúsin geta einnig verið sér kapítuli út af fyrir sig.

„Oft gefa veitingastaðirnir allt of stóra skammta og fólk tekur sér allt of mikið í hlaðborðum. Sá matur sem eftir verður nýtist ekki,“ segir Rannveig.

„Það eru bæði kostir og gallar við hlaðborð. Kosturinn er sá að þú getur stjórnað hversu mikið þú færð þér og tekur passlega mikið á diskinn til að sóa ekki matnum. En græðgisgrísinn fer þarna og fyllir diskinn og fer jafnvel aftur og aftur en skilur svo helminginn eftir,“ segir Rannveig og bendir á nokkur atriði til bóta.

Til dæmis mætti hafa smærri diska við slík hlaðborð þannig að fólk þurfi frekar að fara oftar til að fá sér meira.

Annað ráð, sem þó á alls ekki við um hlaðborð, er að taka afgang með sér heim. Ef skammtarnir á veitingahúsinu eru stórir er um að gera að taka afganginn með heim og nýta hann daginn eftir.

Síðasti söludagur

Margir rýna enn betur í síðasta söludag á umbúðum matvæla en innihaldslýsinguna. Rannveig segir að síðasti söludagur sé ekki alltaf innan skynsamlegra marka.

„Við erum oft að henda mat sem er ekki skemmdur. Við fáum þau skilaboð að vörur hafi ákveðinn endingartíma en oft er þetta í rauninni fjarri sannleikanum. Fyrirtæki vilja oft að fólk hendi matnum og kaupi nýjan. Oft er síðasti söludagur nálægt því að vera réttur en stundum er geymsluþolið skráð miklu minna.“

Fullorðna fólkið ekki með

Landvernd stýrir Grænfánaverkefninu sem er umhverfismennt í skólum og leikskólum. Nemendur eru margir hverjir mjög meðvitaðir um það að nýta mat og hluti. „Það er farið í keppni á milli bekkja í að sóa sem minnstum mat og margt spennandi að gerast inni í mörgum skólunum. Ég held að við fullorðna fólkið séum stundum mun verri en krakkarnir. Elsta kynslóðin er mjög meðvituð, enda ólst hún upp við önnur gildi en tíðkast í dag. Yngra fólk aftur á móti hugsar stundum ekkert út í þetta og eyðir og sóar,“ segir Rannveig.

„Það er gott ráð að klára allt úr ísskápnum áður en meira er keypt. Svo má frysta alla afganga, meira að segja heimsendan mat. Ef maður sér ekki fram á að klára hann daginn eftir er um að gera að skella honum í frystinn,“ segir Rannveig og minnir á góða reglu sem kallast „fyrst inn – fyrst út“ og byggist á því að það sem fer fyrst inn í ísskápinn eða búrið fer fyrst út. Allt nýtt ætti því að fara aftast í skápinn.

Eðli málsins samkvæmt mun alltaf einhver matur fara til spillis en það er býsna margt sem hægt er að gera og ráðin eru fjölmörg.

Fyrsta skrefið hlýtur að vera fólginn í hugsunarhættinum og því að vera meðvitaður um hversu mikið fer til spillis hjá okkur og hvað við sem einstaklingar getum gert til að sporna við matarsóun.

Lesið meira um matarsóun á vef Landverndar og á matarsóun.is

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 29. nóvember 2013.