Á Svæðisskipulagi miðhálendisins er gert ráð fyrir tengingu raforkukerfisins milli Þjórsársvæðisins og byggðalínunnar á Norðurlandi, þ.e.a.s. með háspennulínu yfir Sprengisand. Landsnet hefur þetta til skoðunar. Í drögum að landsskipulagi til 2024 er gert ráð fyrir mannvirkjabelti yfir Sprengisand sem myndi kljúfa hálendið í tvennt. Í sama skipulagi er fjallað um verndargildi svæðisins: „Víðerni bjóða upp á einstaka upplifun sem sífellt færri landsvæði á heimsvísu geta boðið upp á. Mikilvægt er því að vernda íslensk víðerni. Mikilvægt er að almenningur geti notið þeirrar sérstöðu sem hálendið hefur upp á bjóða, án þess að á hana sé gengið.“